26.12.07

um stund

Ég velti því fyrir mér hversu margt við gerum sem aðeins veitir okkur ánægju um stund. Að allt í heiminum varir aðeins eitt andartak og svo er það liðið og hið næsta tekur við. Nýtt andartak, nýtt augnablik, ný tilfinning, nýjar aðstæður... allt getur breist á fáeinum sekúndubrotum. Samt er þetta allt í andstæðu við sjálft sig... við leitumst við að gera hluti sem veita okkur langvarandi ánægju, reynum að finna eilífa hamingju, sanna gleði, reynum að treina okkur vellíðunartilfinninguna eins lengi og mögulegt er... samt lifum við í augnablikum... andartökum og allt getur breyst á svipstundu.
Við elltumst við hluti sem veita okkur stundarfró. Við verðum að eignast allt og geta allt og kunna allt og erum í sífelldu kapphlaupi... keppumst við að búa til fullkomna stund... en áttum okkur ekki á því að sú fró mun aðeins endast okkur skammt... aðeins um stund.
Það er svo skrítið hvað maður getur verið að elltast við mínútur og stundir... tilfinningar og þrár... Alltaf er maður að leita að öðru betra... af því maður er aldrei í núinu... þessari stund heldur á höttunum eftir annarri betri... eða í sút og seiru yfir annarri liðinni... þó er hún löngu liðin hjá...
Ég þekki þetta svo vel því í veikindum mínum leitaði ég ýmissa leiða til að finna sælu... eitt stundarkorn... ég tók einn bita af einhverju forboðnu og sætu... og það seig á mig víma... ég tók annann... og annann... og allir voru jafn dásamlegir... en sælan hvarf jafn skjótt og molinn rann ofan í maga... svo ég sótti annann... og annnann... en alltaf hvarf dásemdin jafn fljótt... Víman varði ekki nema eitt augnablik og hvarf jafn skjótt og hún kom... vegna þess að ég var ekki á staðnum... ég var ekki í núinu... ég hugsaði stöðugt um næsta mola.. og næsta... og ég vissi að þegar ég væri búin að troða í mig nógu mörgum molum þá færi puttinn upp í kok... og þá tók við næsta víma... sælan yfir því að geta losað sig við allan þennan óþverra...
og allt var þetta örvæntingarfull leið til að finna hverfa burt frá grámanum og einmannaleikanum um stund. Leið til að fylla upp í tómið í lífinu mínu... því jafnvel í fjölmennasta hóp getur einmannaleikinn heltekið mann... jafnvel innan um fjölskyldu og vini... ef hugurinn er fjarri...
að uppköstunum loknum varð allt svart... sektarkennd og vanlíðan, líkaminn öskraði af sársauka, hugurinn varð svíðandi eiðimörk... sorgir yfir liðnum stundum, kvíði fyrir þeim komandi... og augnablikin liðu hvert af öðru...
Ein stund líður hjá og sú næsta tekur við, eitt bros tekur við af öðru, eitt tár elltir annað...
andartökin taka við hvert af öðru og alltaf er ný stund, nýtt tækifæri til að finna nýja tilfinningu... og nýtt tækifæri til að upplifa þá stund og enga aðra... því þegar við förum að gera það.. þegar við förum að vera í þeirri stund, þá og þegar... þá förum við að uppgötva og finna þessa eilífðarfró sem við öll leitum að...
Gleði í sérhverri stund er röð af gleðistundum, en tapi maður áttum og festist í liðnum eða ókomnum stundum þá missir maður af augnablikinu og missi maður af augnablikinu tapar maður af gleðistund og rífur heildina, tapar áttum... og upplifir aðeins glefsur af hamingju hér og þar...
það er hægara sagt en gert að halda sig við núið... og flest forðumst við það... forðumst að upplifa og dvelja í líðandi stund, forðumst rætur tilfinninga okkar. Allt í kring um okkur eru afvegaleiðandi gylliboð og loforð um betri tíma.
En stundarfró veldur aðeins magaverkjum og sárum hálsi, eyddum tönnum og fölnuðum vanga, tómum augum og ákafari þrá eftir einhverju sem veitir þó ekki sé nema augnabliks sælu... einu ljósbroti í svartnættinu...
hve dásamleg er sú stund?? Hve sæl er sú sál sem aðeins finnur gleði í einni stund af hundrað því hún er svo upptekin af þeirri næstu, eða þarnæstu...?
Við njótum ekki einu sinni jólanna! Alla aðventuna keppumst við að undirbúa jólin... það verða nú að vera fín og flott jól... svo koma jólin...hvað gerist þá? þau líða! og þá tekur við áramótaundirbúiningurinn... og áramótin, þau líða...
og nýja árið tekur við með fögur fyrirheit... og það líður... og fyrr en varir eru aftur komin áramót og þú uppgötvar að þú stóðst aldrei við gömlu áramótaheitin... en einsetur þér að gera betur á nýju ári... fyllist bjartsýni um stund... keppist við að sprengja sem flesta og sem flottasta flugelda... gera meira og betra en nágranninn... þeytir þeim öllum upp í loftið og hrósar happi... en hvað skilur það eftir sig annað en spýtnabrak og pappírstættlur... því tókstu nokkuð eftir ljósadýrðinni og fögnuðinum í öllu sprengiæðinu?? dáðist þú að flugeldum nágrannans? Naustu þess að það var heiðskýrt og himinninn flóði í ljósi?
sennilega varstu bara upptekinn af því að koma næstu rettu upp... eða drífa þetta af svo þú kæmist á áramótaballið... ballið sem rennur saman við öll hin böllin af því þú varst svo upptekinn af þvi að gera þetta að besta ballinu að þú drakst of mikið og mannst ekkert eftir því.. frekar en hinum...
nei, þetta hljómar kannski neikvætt... það var ekki ætlunin...
En sé maður vansæll núna kemur það ekki til með að batna þó maður sprengi dýrustu og flottustu flugeldana, eða hámi í sig kökur, eða kaupi dýrar græjur, eða drekki sig fullan, eða dópi sig upp, eða reyki eina sígó í viðbót. Það er bara frestun á vanlíðan... við verðum jafn vansæl, jafnvel vansælli og sakbitnari á eftir...
Ég er bara að segja að við ættum kannski að staldra við... um stund...
og með tímanum reyna að gera það stund eftir stund... eltast ekki við næstu stundir eða harma þær liðnu... að vera bara og gera bara og líða einmitt svona...
um stund

7 comments:

OFURINGA said...

Ólöf mín, mikið ofsalega var þetta falleg og sönn færsla!
Vona að þú eigir hamingjurík og góð jól, laus við alla vanlíðan og sektarkennd.
Bestu kveðjur,
Inga Hlín

Anonymous said...

Hæ Ólöf! Alveg sammála Ingu, það er svo mikið sannleikskorn í þessari færslu þinni...maður er aldrei ánægður, þó að maður hafi allt! Góða heilsu, fjölskyldu, vini ofl. Alltaf er grænna hinum megin við hólinn! En mig langar að venda kvæði mínu í kross og lifa bara í núinu. Já! ég hugsa að ég geri það! Maður á ekki að taka öllu sem sjálfsögðum hlut. Það getur allt gerst. En ég vonast til að sjá þig hjá mér á laugardaginn. Kíktu á bloggið hjá okkur stelpunum :)

Anonymous said...

Ég er nú bara ekki frá því að þetta sé jólahugvekjan í ár... Það er mikill sannleikur í þessu...sannleikur sem erfitt er að horfast í augu við, því öll könnumst við við þetta. En það er erfitt að viðurkenna það. Ég vona bara að jólin þín og áramótin hafi verið/verði hamingjurík og full af þessum yndislegu augnablikum...vonast svo sannarlega til að sjá þig hjá Jónu annað kvöld elsku krúttið mitt ;)
Kveðja Eyrún

Anonymous said...

Mér þykir vænt um þig :*

Anonymous said...

Elsku tetrid mitt!
Mikid fannst mer gott ad lesa thessa faerslu fra ther.... og audvitad fer madur ad hugsa... thetta er alveg satt hja ther og best finnur madur thad thegar madur er i langtburtistan... sorglegt samt ad madur thurfi ad fara alla leidina hinu megin a hnottinn til ad slaka a yfir thennan tima! En eg verd sko bokad i jola/aramotatjillinu naesta og naestu arin.... viltu vera memm??? ;o)
Lolju
Spolfridur fraenka

Anonymous said...

jaháts... ég er memm!

Anonymous said...

já, stundum á ég það til að líta á sjálfa mig og hugsa "mikið rosalega á ég gott miðað við marga aðra" hugsið ykkur allt fólkið sem býr við stríð og skotárásir á hverjum degi. ég kippist nú bara strax við ef ég heyri í einum flugel springa, það er að segja ef það er ekki á gamlárs eða þrettándanum. hugsið ykkur þá sem missa maka sinn eða börn... eru greindir með alvarlega sjúkdóma eða lenda í slysi. hugsið ykkur þá sem eiga ekki þak yfir höfuðið eða pening fyrir mat!!! og það þarf ekkert að leita út fyrir landsteinana til að finna svoleiðis. og svo kallast þetta BESTA LAND Í HEIMI... Í mínum huga er þetta reyndar besta land í heimi en við meigum ekki gleyma þeim sem minna meiga sín. Munum bara að þakka fyrir það að hafa fæðst heilbrigð og að eiga góða að. þegar e-h bjátar á þá eru vinirnir alltaf til staðar til að styðja mann í gegnum súrt og sætt. málið er samt að við þurfum oft að láta þá vita ef við eigum erfitt. ef við gerum það þá standa allar dyr opnar fyrir manni.
mér þykir alveg ofboðslega vænt um þig Ólöf mín og mínar dyr standa ávalt opnar.
Þín vinkona Rakel