23.2.06

öskrandi og æpandi...

Finnst ykkur aldrei eins og eitthvað sé inn í ykkur öskrandi um að komast út?
Finnst ykkur stundum að þið séuð þurrausinn brunnur og ekkert upp úr ykkur að veiða?
Finnst ykkur eins og einhver hafi læst allt inni og sama hvað þið reynið að brjóta upp lásinn, ekkert gengur... ekkert gerist?

Hvað stjórnar því hvenær maður er eins og opin bók og blaðrar öllu sem maður mögulega hefur frá að segja... eða þarf jafnvel ekkert að segja því það sést á manni hvernig manni líður.. hvað maður er að hugsa... hvað maður er að gera? Hvers vegna getur maður stundum ekki sagt það sem manni liggur á hjarta? Hvers vegna lokar maður á hæfileika sína? Hvers vegna trúir maður ekki á það sem maður er? Hvers vegna er maður eina stundina öskrandi ljón en þá næstu lítill maur á flótta undan stórum þungum fótum?

Það er svo skrítið hvernig við erum. Hvernig við erum völundarhús á upphafs og endis. Hvar á að byrja? Veist þú það? Hvað ertu að hugsa núna og ef þú ert að hugsa það, ertu þá enn þá að hugsa það núna? Ræður þú hvað þú hugsar eða gerist það bara af því bara? Af hverju getum við ráðið sumu en ekki öðru? Ef ég vil ekki hugsa um eitthvað, af hverju poppar það þá aftur og aftur upp í hausnum á mér?

Ef ég vil geta eitthvað, af hverju get ég það ekki, þó ég geti það?
Hvor er sterkari, viljinn eða hugurinn?
Er það kannski vitið?

Hvað er það að vita? Vitum við eitthvað fyrir víst?
Maður má ekki týna sér.

En var maður einhvertíma fundinn?

Innst inni veit maður kannski sínu viti, en út á við vitum við ekki hvernig við munum bregðast við næstu hugmynd. Við ætlum kannski að tækla hana, en þegar hún veður fram í sviðsljósið er aldrei að vita hvað gerist.

21.2.06

takk fyrir mig...

Takk!
stutt og einfalt orð sem við notum almennt allt of lítið!
... svo einfalt... en ótrúlega erfitt að muna...
og samt er svo margt að þakka...
allt í kring um mig er yndislegt fólk sem er alltaf að hjálpa mér, segja eitthvað uppörvandi við mig, gleðja mig, tala við mig, vinna með mér, fæða mig, hýsa mig... fólk sem er annt um mig og mér er annt um og sem ég er svo ótrúlega þakklát fyrir að eiga að, fyrir að hafa kynnst... fólkið sem vill gera allt fyrir mig og sem ég vil gera allt fyrir...
takk fyrir mig!
takk fyrir allt!
ég ætla að einsetja mér að nota þetta orð meira! þetta góða orð!
... mér verður alltaf hugsað til ákveðins vinar míns sem notar þetta óspart og er einhver fallegasta manneskja sem ég veit um í öllum heiminum...
falleg sál...
ykkur finnst þetta kannski væmið og klisjukennt en þið skiljið það seinna... einhvern daginn...
þegar þið uppgötvið að þið gleymduð afmæli vinar ykkar, gleymduð að þakka ömmu fyrir kleinurnar sem hún sendi ykkur, gleymduð að þakka fyrir skutlið heim, fyrir að einhver rétti ykkur mjólkurfernuna, fyrir afgreiðsluna, fyrir ... allt þetta smáa sem samt skiptir máli... þegar maður uppgötvar að það er svo sárt að gleyma...
þegar allir muna eftir þér... og þú ert í eigin heimi... hamingjusamur og kærulaus með allt sem þú færð... en gleymir að þakka fyrir það..
mig langar bara að segja takk og ef þú lest þennan póst, takk fyrir það!

8.2.06

hvað er bak við hurð...?

hvað er undir rúmi?
ég veit það ekki... annars væri ég varla að spurja...spyrja... ?!
spyrja!
það er svo merkilegt hvað ímyndunaraflið er sterkt... hvað við getum látið okkur detta margt sniðugt... og minna sniðugt... í hug.. hvað við getum hugsað...
það sem við hugsum... eða öllu heldur það sem við ímyndum okkur... er það eitthvað sem við höfum mynd af áður... eða... já, það sem ég er að reyna að segja... Er ekki ímynd búin til úr mörgum bútum af raunmyndum sem eru einhverstaðar í gagnabankanum...? og það er eiginlega svolítið þverstæðukennt.. þvi einmitt börn hafa hvað fjörugasta ímyndunaraflið en með aldrinum rennur af þeim ímyndunarveikin... og raunsæari og jarðbundnari hugmyndir yfirtaka hugann...
... þvílíkt tjón...
ég held að maður ætti að gera allt sem í manns valdi stendur til að halda fast í allt ímyndunarafl sem maður hefur... ég held að það sé mesti styrkur sem hægt er að búa yfir!
... sjáðu bara.. maður getur gert sér hvað sem er í hugarlund... hugsað dreyminn um eitthvað skemmtilegt þegar leiðindin dynja yfir... það þarf ekkert að vera leiðinlegt... í einverunni ímyndar maður sér bara vini.. eða talar við stóla og borð... eða veggina... þeir hafa eyru.. við vitum það öll..
...og þá spyr ég...
hvað er ekki undir rúmi?
því það er mögulega hvað sem er undir rúmi!
áin Volga rennur þar...
snjómaðurinn ógurlegi fékk sér hænublund þar og það má ekki vekja hann...
Hallgerður langbrók ríður þar hesti sínum..
strumparnir byggja brú yfir ána...
stór og feit eiturslanga bíður átekta og ætlar að bíta af þér tærnar ef tær stingast undan sænginni....!
ekki kíkja!
EKKI KÍKJA!
...láttu ímyndunaraflið um að segja þér hvað er bak við hurð...
hvað er bak við hurð?